„Ég verð að fá að setjast aðeins niður, afsakið þetta. Er hægt að gera smá hlé?“ sagði Kristjana á meðan dómarar réðu ráðum sínum eftir hraðaspurningar.
Í frétt RÚV segir að sex mínútna hlé hafi þá verið gert á útsendingu á meðan hlúð var að Kristjönu.
Sævar Helgi Bragason dómari hljóp í skarðið fyrir Kristjönu og tilkynnti að liðið hefði yfir hana en að hún væri heil heilsu. Hann benti réttilega á að allt geti gerst í beinni sjónvarpsútsendingu.
Í frétt RÚV segir að Kristjana hafi leitað á bráðamóttöku til skoðunar en að henni hafi liðið vel miðað við aðstæður.
Kristjana greindi frá því í byrjun janúar að þau Haraldur Franklín Magnús ættu von á sínu fyrsta barni.
Mikið álag á starfsfólki
Anna Fríða Gísladóttir, yfirmaður stafrænnar markaðssetningar hjá BIOEFFECT og vinkona Kristjönu, sagði á Twittersíðu sinni eftir atvikið að RÚV ætti að taka ábyrgð og huga að álagi á starfsfólk sitt og að önnur eins atvik hafi komið upp áður.
#gettubetur@RUVohf takið ábyrgð og hugið að álagi á fólkinu ykkar. Þetta er ekki fyrsta skipti sem svona gerist. En látið þetta vera það seinasta.
— Anna Fríða Gísladóttir (@AnnaFridaGisla) February 4, 2022
Þórhildur Þorkelsdóttir, fyrrverandi fréttamaður á RÚV virðist taka undir með Önnu Fríðu en hún endurtísti færslu hennar.
Fyrir nánast sléttum tíu árum kom álíka atvik upp þegar leið yfir Guðrúnu Dís Emilsdóttur við tökur á Gettu betur.
Greint var frá því í dag að Gunna Dís hefur snúið aftur á Ríkisútvarpið á ný eftir að hafa kvatt vinnustaðinn 2019 og flutt til Húsavíkur.