Innlent

Reyndi að stinga annan mann með skrúf­járni

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Lögreglan sinnti ýmsum verkefnum í gærkvöldi og nótt.
Lögreglan sinnti ýmsum verkefnum í gærkvöldi og nótt. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók í gærkvöldi mann í miðborg Reykjavíkur, eftir að hann hafði gert tilraun til þess að stinga annan mann með skrúfjárni.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um verkefni gærkvöldsins og næturinnar. Þar segir að maðurinn dveljist ólöglega hér á landi, en það ekki skýrt nánar. Viðkomandi hafi verið vistaður í fangaklefa lögreglunnar.

Þá var eigandi skemmtistaðar kærður fyrir brot á sóttvarnalögum og lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald þar sem stað hans hafði ekki verið lokað á tilsettum tíma. Ekki kemur fram í dagbók lögreglu um hvaða stað var að ræða.

Meðal annarra verkefna á borði lögreglunnar í nótt voru minni háttar innbrot, fylleríslæti og hópslagsmál. Alls hafði lögregla afskipti af níu ökumönnum sem grunaðir voru um akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×