Frá þessu segir í frétt DR. Þar segir að báðir menn neiti sök í málinu sem vakið hefur mikla athygli í Danmörku síðustu daga.
Ekkert hefur spurst til Mia Skadhauge Stevn frá því að sást til hennar á öryggismyndavélum stíga upp í bíl í miðborg Álaborgar á Jótlandi snemma á sunnudagsmorgun.
Lögregla og aðrir viðbragðsaðilar hafa haldið leitinni að Miu Skadhauge Stevn áfram í dag og var meðal annars leitað við sorpvinnslustöð skammt frá Álaborg í morgun. Leitin hefur þó enn engan árangur borið.
Mennirnir tveir voru handteknir í Østervrå annars vegar og Flauenskjold hins vegar, klukkan 11 að staðartíma í gær. Báðir staðir eru norður af Álaborg á Jótlandi. Á öðrum staðnum var hald lagt á dökkmálaðan bíl sem svipaði til þess bíls sem sést á öryggismyndavélum og konan steig upp í eftir um tíu sekúndna spjall við ökumann eða farþega.
Mennirnir voru handteknir í gær vegna gruns um að hafa banað konunni, líkt og sagði í tilkynningu lögreglu.
Vitað er að konan hafði verið að skemmta sér á skemmtistaðagötunni Jomfru Ane Gade, gengið svo Borgergade til vesturs og svo Vesturbrú til suðurs þar sem hún settist upp í bílinn.