Körfubolti

LeBron talaði við ungan sjálfan sig í einni flottustu Super Bowl auglýsingunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hinn 37 ára gamli LeBron James sést hér tala við sjálfan sig þegar hann var aðeins átján ára gamall.
Hinn 37 ára gamli LeBron James sést hér tala við sjálfan sig þegar hann var aðeins átján ára gamall. Skjámynd/Crypto

Körfuboltastjarnan LeBron James var ekki aðeins meðal áhorfenda á Super Bowl í nótt því hann var einnig í aðalhlutverki í einni auglýsingunni.

Auglýsingin með James er mjög vel heppnuð og frábært dæmi um það sem hægt er að gera vel með nútíma tækni.

LeBron James er nefnilega tímaferðalangur í þessari auglýsingu frá Crypto.

Nútíma James hefur þar ferðast aftur til ársins 2003 til að hitta ungan sjálfan sig þegar hann var átján ára og átti eftir að stíga sín fyrstu skref í NBA.

Hér fyrir neðan má sjá þessa auglýsingu þar sem hinn ungi LeBron er að forvitnast um framtíðina og að leita eftir góðum ráðum frá eldri og mun reyndari útgáfu af sjálfum sér.

James fór kom beint inn í NBA-deildina úr menntaskóla og sjaldan hafa væntingarnar verið hærri hjá einum leikmanni.

Hann stóðst þær og gott betur enda talinn einn allra besti leikmaður sem hefur spilað i NBA-deildinni.

James hefur fjórum sinnum orðið meistari og er á góðri leið með að verða stigahæsti leikmaður deildarinnar frá upphafi. Hann hefur fjórum sinnum verið kosinn mikilvægasti leikmaður deildarinnar og þrettán sinnum komið í fyrsta úrvalslið deildarinnar.

Afrekaskráin er löng og söguleg og James mun eiga mörg met þegar ferillinn er á enda. Hann er hins vegar ekki að fara að enda nærri því strax þótt að hann sé orðinn 37 ára gamall enda er kappinn með 29,0 stig, 7,9 fráköst og 6,5 stoðsendingar að meðaltali með Los Angeles Lakers á þessu tímabili.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×