Um helgina var stórt skref stigið í afléttingum á sóttvarnatakmörkunum. Skemmtanalífið var í hæstu hæðum liðna helgi á sama tíma og verulega fjölgaði í hópi smitaðs starfsfólks á Landspítalanum. Nú eru 302 starfsmenn Landspítalans frá vinnu vegna sýkingar en fyrir helgi voru þeir rúmlega 250.
Á spítalanum liggur nú 41 með COVID-19 og eru tveir á gjörgæslu. Annar þeirra er í öndunarvél.
Sigríður segir að róðurinn sé þungur vegna fjarvista.
„Þetta hefur verið okkar helsta áhyggjuefni undanfarið; hversu mikil áhrif nákvæmlega þessar útbreiddu sýkingar munu hafa á starfsemina. Þarna hefur aukist allverulega í hópi smitaðra starfsmanna sem eru núna frá vinnu. Það er mjög flókin staða að leysa úr og verkefni sem við liggjum yfir á hverjum einasta degi.“
Bæði heilbrigðisráðherra og sóttvarnalæknir hafa sagt að ef ekkert óvænt komi upp á sé hægt að ráðast í allsherjar afléttingu á takmörkunum fyrir mánaðamót. Sigríður var spurð hvernig henni litist á blikuna.

„Þetta er mikil jafnvægislist að hitta á rétta tóninn í þessu. Þetta veldur okkur, sem stýrum viðbragði á spítalanum, náttúrulega talsverðum áhyggjum þegar afléttingar eru þetta miklar einfaldlega vegna þess að eftir því sem fjölgar í hópi smitaðra þá er alltaf ákveðið hlutfall sem leggst inn á sjúkrahús. Þetta getur haft miklar og alvarlegar afleiðingar í okkar starfsmannahópi. Þannig að þetta verða þungar vikur fram undan, það er alveg á hreinu og ef afléttingar verða ennþá meiri þá má búast við því að þetta verði krefjandi verkefni hérna hjá okkur á Landspítalanum.“
Sigríður segir að verulega hafi reynt á starfsmannahópinn í kórónuveirufaraldrinum. Það sé eitt að bregðast við nokkurra vikna krísuástandi en allt annað vinna undir viðvarandi álagi nú í rúmlega tvö ár.
„Við höfum áhyggjur af því að það verði aukið brottfall úr okkar starfsmannahópi en á hverjum einasta degi reynum við að leita lausna og að styðja við fólk en raunverulega lausnin felst í því að þessu álagi sloti“