Sólveig Anna segir þær Agnieszku Ewu Ziolkowska og Ólöfu Helgu Adolfsdóttur, sitjandi formann og varaformann, ekki hafa haft neitt samband við sig í kjölfar öruggs sigurs hennar í formannskosningum á dögunum. Hvorki til að óska henni til hamingju með sigurinn né ræða „praktísk“ mál.
Sólveig Anna hefur sagst vilja að stjórnaskipti í Eflingu fari fram sem allra fyrst.
Til þess að Sólveig Anna og B-listi geti tekið við völdum þarf aðalfundur Eflingar að fara fram. Þann 12. nóvember síðastliðinn ályktaði trúnaðarráð Eflingar að flýta skyldi kosningum til stjórnar og aðalfundi. Kosningar skyldu fara fram fyrir 15. febrúar og aðalfundur fyrir 15. mars. Kosningar fóru fram á þriðjudag 15. febrúar.
Sólveig Anna fór sem áður segir með sigur af hólmi og nú er hana og félaga hennar á B-lista farið að lengja eftir aðalfundi og valdaskiptum.
Í færslu á Facebook-síðu sinni segir Sólveig Anna að sitjandi formaður og varaformaður fari ekki að vilja trúnaðarráðs með því að hafa ekki upplýst um það hvenær aðalfundur fari fram.
„Í stað þess að hegða sér með sómasamlegum hætti í kjölfar lýðræðislegra kosninga og í samræmi við það embætti sem hún gegnir er varaformaður Eflingar, Ólöf Helga Adolfsdóttir, í rökræðum á samfélagsmiðlum um það afhverju hún ætlar sér ekki að framfylgja vilja trúnaðarráðs félagsins, æðsta valds í málefnum félagsins á milli félagsfunda,“ segir Sólveig Anna.
Í ljósi þeirrar stöðu hafi B-listi falið lögmanni að senda sitjandi formanni, Agnieszku Ewu Ziolkowska, bréf þar sem óskað er eftir því að upplýst hvenær fyrirhugað sé að halda aðalfund.
Bréfið má sjá hér að neðan:
