Innlent

Björgunar­sveitin í Kefla­vík bjargaði tveimur mönnum naum­lega úr höfninni

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Svona voru aðstæður í Keflavíkurhöfn í gærkvöldi.
Svona voru aðstæður í Keflavíkurhöfn í gærkvöldi. Víkurfréttir

Björgunarsveitin í Keflavík var á fullu í alla nótt, eins og björgunarsveitir um allt land, til að koma í veg fyrir alls konar tjón, fok á ruslatunnum, þakplötum og öllu þessu „klassíska“. Eitt útkall stóð þó framar öðrum, þegar tveir ungir menn urðu innlyksa í höfninni. 

„Þetta byrjaði með hvelli hjá okkur í gær í Reykjanesbæ og framan af var þetta smotterí, þetta klassíska, fjúkandi ruslatunnur og byggingarsvæðin að láta til sín taka,“ segir Haraldur Haraldsson, formaður björgunarsveitarinnar Suðurnes, í samtali við fréttastofu. Víkurfréttir greindu fyrst frá í gærkvöldi.

„Svo ekur bíll út í stórfljót við Keflavíkurhöfn, hann flýtur upp og fer svo að snúast og rennur út í stórt stöðuvatn sem hafði myndast þarna á hafnarbakkanum. Þetta voru tveir ungir piltar, þeim tókst að komast upp á þakið á bílnum en það gengu yfir þá brimskaflarnir,“ segir Haraldur sem segist sjaldan hafa séð annað eins. 

Bæði var háflóð í gærkvöld og mikill öldugangur og leiddi það af sér að hálfgert stöðuvatn hafði myndast á höfninni. Hann segir að sjórinn hafi verið svo djúpur að dekkin á björgunarsveitarjeppanum, 50 tommu dekk, voru á kafi í sjó. 

„Við náðum að bjarga öðrum drengnum. Við drógum hann af bílnum og inn um gluggann hjá okkur en hinn náði að komast af sjálfsdáðum upp 8-10 metra klettavegg og fara upp á Hafnargötu,“ segir Haraldur. 

„Þetta var klárlega hrein lífbjörgun, þarna vorum við ekkert að elta ruslatunnur, þetta var beinlínis mannsbjörgun. Ég hef aldrei nokkurn tíman séð annað eins.“ 


Tengdar fréttir

Björguðu bílum í svakalegum vatnselg á Miklubraut: „Þeir voru bara ekki með nógu stór stígvél strákarnir“

Mikill vatnselgur er nú víða á götum á höfuðborgarsvæðinu. Björgunarsveitargarparnir Magnús Stefán Sigurðsson og Gunnar Ingi Sverrisson voru til að mynda að reyna að losa stíflur á Miklubrautinni og hjálpa ökumönnum í vandræðum þegar fréttastofa náði tali af þeim. Þeir létu vatnselginn lítið á sig fá en biðla til fólks að fara varlega. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×