Ragnhildur Alda sóttist eftir fyrsta sæti á lista Sjálfstæðisflokksins en laut í lægra haldi fyrir mótframbjóðanda sínum í oddvitasætið, Hildi Björnsdóttur.
„Frá mínum dýpstu hjartarótum langar mig að þakka öllum þeim sem kusu mig og lögðu baráttunni lið, innilega fyrir hjálpina! Sterk liðsheild og feiknaöflugur stuðningsmannahópur skilaði okkur þessum stóra sigri og magnaða árangri - og það á örstuttum tíma. Ég er gríðarlega stolt af árangrinum, en hann er fyrst og fremst ykkur að þakka sem lögðuð hönd á plóg og veittuð mér stuðning og traust í kjörklefanum,“ skrifar Ragnhildur Alda á Facebook.
Ragnhildur Alda var fyrsti varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á síðasta kjörtímabili. Hún segir að fyrir „tiltölulega ungan og óþekktan varaborgarfulltrúa“ hafi verið á brattan að sækja, allt frá upphafi. Því séu niðurstöður prófkjörsins sigur í sjálfu sér. Stuðningsmenn hennar séu hreyfiafl og bjart sé fram undan fyrir flokkinn í borginni.
„Ég er virkilega hreykin af því trausti sem mér hefur verið sýnt og af því að tilheyra þessum glæsilega hópi sjálfstæðismanna. Niðurstöðurnar sýndu og sönnuðu að okkar málflutningur átti sannarlega erindi við kjósendur.“
Þakkar Hildi fyrir drengilega baráttu
Í færslunni þakkar Ragnhildur Alda mótframbjóðanda sínum í oddvitasætið, Hildi Björnsdóttur borgarfulltrúa, fyrir drengilega baráttu. Þá óskar hún öllum þeim sem hrepptu sætu á listanum til hamingju,
„Úr prófkjörinu kemur öflugur listi af nýliðum og reynsluboltum sem ég hlakka til að starfa með. Framundan er vinna kjörnefndar en hún hefur það mikilvæga verkefni að raða upp sigurstranglegum lista fyrir næstu kosningar,“ skrifar Ragnhildur Alda.
Næstu dagar fari í nauðsynlega hvíld, og það að svara þeim kveðjum og skilaboðum sem hún hafi fengið en ekki haft tíma til að svara í hamagangi kosningabaráttunnar.
„Kæru vinir, verkefnið nú er að koma Sjálfstæðisflokknum í leiðandi hlutverk í borgarstjórn og að því þurfum við öll að vinna. Með samstöðuna að vopni verðum við alda breytinga í þágu borgarbúa,“ skrifar Ragnhildur Alda að lokum.
