Barcelona vann 1-3 sigur á Real Madrid í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í gær. Madrídingar náðu forystunni með marki Olgu García Carmona á 8. mínútu og voru yfir í hálfleik. En í seinni hálfleik tóku Börsungar öll völd á vellinum.
Alexia Putellas, besta fótboltakona heims, jafnaði með marki úr vítaspyrnu í upphafi seinni hálfleiks og þegar tíu mínútur voru eftir kom Claudia Pina gestunum yfir. Putellas skoraði svo sitt annað mark og þriðja mark Barcelona í uppbótartíma. Barcelona er því í góðri stöðu fyrir seinni leikinn sem fer fram á Nývangi í næstu viku. Uppselt er á leikinn en búist er við því að 85 þúsund verði á vellinum.
Þetta var annar sigur kvennaliðs Barcelona á Real Madrid á tíu dögum. Þann 13. mars rústuðu Börsungar Madrídingum á heimavelli, 5-0.
Á sunudaginn vann karlalið Barcelona svo Real Madrid, 0-4, á Santiago Bernabéu. Þetta var fyrsti sigur Barcelona á Real Madrid í sex leikjum. Börsungar sýndu allar sínar bestu hliðar í leiknum og virðast svo sannarlega vera komnir til baka undir stjórn Xavis.
Barcelona hefur því unnið þrjá leiki gegn Real Madrid á tíu dögum með markatölunni 12-1.
Kvennalið Barcelona hefur unnið alla leiki sína á tímabilinu, 24 í deild, tvo í bikar, tvo í ofurbikar og sjö í Meistaradeild. Barcelona vann allt sem hægt var að vinna á síðasta tímabili og þykir líklegt til að endurtaka leikinn í ár.