Körfubolti

Benedikt fyrstur til að gera þrjú félög að deildarmeisturum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Valur - Njarðvík Subway deild karla vetur 2021 körfubolti KKÍ deild karla vetur 2021-2022 körfubolti KKÍ
Valur - Njarðvík Subway deild karla vetur 2021 körfubolti KKÍ deild karla vetur 2021-2022 körfubolti KKÍ

Körfuboltaþjálfarinn Benedikt Guðmundsson skrifaði söguna í gærkvöldi þegar hann gerði Njarðvíkurliðið að deildarmeisturum í Subway-deild karla í körfubolta.

Benedikt varð þar með fyrsti þjálfarinn sem nær að gera þrjú félög að deildarmeisturum í úrvalsdeild karla.

Undir hans stjórn urðu Grindvíkingar deildarmeistarar vorið 1998 og vorið 2009 varð KR-liðið deildarmeistari undir stjórn Benedikts.

Njarðvík hafði ekki orðið deildarmeistari í fimmtán ár eða síðan liðið vann deildina vorið 2007. Það tímabil var Benedikt þjálfari KR og gerði Vesturbæjarliðið að Íslandsmeisturum eftir sigur á Njarðvík í lokaúrslitunum.

Benedikt tók við Njarðvíkurliðinu síðasta sumar eftir að liðið hafði endaði í níunda sæti deildarinnar og náði að fara með liðið upp um átta sæti á milli tímabila.

Benedikt átti metið með Friðriki Inga Rúnarssyni fyrir leikinn en þeir höfðu gert tvö félög að deildarmeisturum.

Friðrik Ingi gerði Njarðvík að deildarmeisturum 1991 og 2000 en Grindavík varð síðan deildarmeistari undir hans stjórn árið 2003.

Sigursælustu þjálfararnir í sögu deildarkeppninnar, Sigurður Ingimundarson (6 titlar) og Finnur Freyr Stefánsson (4 titlar) unnu báðir alla titlana með sínu uppeldisfélagi.

  • Flestir deildarmeistaratitlar þjálfara:
  • 6 - Sigurður Ingimundarson (með Keflavík)
  • 4 - Finnur Freyr Stefánsson (með KR)
  • 3 - Gunnar Þorvarðarson (með Njarðvík)
  • 3 - Valur Ingimundarson (með Njarðvík)
  • 3 - Friðrik Ingi Rúnarsson (með Njarðvík og Grindavík)
  • 3 - Benedikt Guðmundsson (með KR, Grindavík og Njarðvík)
  • 2 - Jón Kr. Gíslason (með Keflavík)
  • 2 - Arnar Guðjónsson (með Stjörnunni)



Fleiri fréttir

Sjá meira


×