„Ég er náttúrlega gamall fréttahundur og fann það bara mjög sterkt að forvitnin er það sterk í mér og ég er ekki alveg búinn að klára mig í þessum fréttamannabransa, þannig að þegar þessi möguleiki kom upp þá kitlaði það bara of mikið til að sleppa því,“ segir hann í samtali við Vísi.
Forveri Guðmundar var Helgi Vífill Júlíusson en honum var sagt upp störfum á miðvikudag.
„Ég er bara gríðarlega spenntur og ég held að maður eigi alltaf að fylgja hyggjuvitinu og kviðnum, og ég fann það bara þegar ég labbaði inn á þessa kröftugu fréttastofu að þarna á ég heima,“ segir Guðmundur.
Þurfi að læra blaðamennsku á ný
Guðmundur vonast til Markaðurinn muni undir hans leiðsögn fjalla um viðskipti og efnahagsmál á mannamáli og á hátt sem fólk tengi við og skilji.
„Ég kem inn í gríðarlega sterkt teymi og þau þurfa eiginlega að kenna mér á blaðamennsku því ég kem af ljósvakamiðli en hef fulla trú á því að við eigum bara eftir að mynda öflugt teymi og stunda hörkublaðamennsku.“
Auk þess að vinna fréttir fyrir Fréttablaðið og vef blaðsins er Markaðurinn með sjónvarpsþátt á systurmiðlinum Hringbraut.
Guðmundur var nálægt því að vera kjörinn á þing fyrir Viðreisn í síðustu alþingiskosningum en féll út á lokametrunum eftir endurtalningu í Norðvesturkjördæmi. Hann kærði endurtalninguna í Norðvesturkjördæmi en hafði ekki erindi sem erfiði.
Fréttin hefur verið uppfærð. Í upphaflegri útgáfu sagði að Hörður Ægisson hafi verið forveri Guðmundar en hið rétta er að Helgi Vífill Júlíusson gegndi síðast stöðu fréttastjóra.