Guðmundur Baldursson kom inn í stjórn Eflingar með Sólveigu Önnu Jónsdóttur árið 2018, en bauð sig svo fram til formanns félagsins gegn Sólveigu í nýafstöðnum kosningum í febrúar.
„Maður á varla orð yfir þetta. Ég þekki Sólveigu frá 2018. Mér hefði aldrei nokkurn tímann dottið í hug að hún gerði svona. Væntanlega kemur þá þarna inn nýtt fólk. Gríðarlega dýrmæt þekking sem er farin í burtu, hún tekur mörg ár að koma til baka. Þú lærir þetta ekki í bókum þetta kemur með reynslunni. Þannig að þetta eru gífurleg afglöp hvað þetta fólk hefur staðið fyrir,“ segir Guðmundur í samtali við fréttastofu.
Sólveig Anna hefur sagt uppsögnina nauðsynlega til ráðast í nauðsynlegar skipulagsbreytingar á skrifstofu Eflingar. Hún hefur beðið um vinnufrið til þess að koma starfseminni í samt lag og kveðst ekki hafa áhyggjur af því að skrifstofan verði óstarfhæf í millitíðinni.
Átta kusu með uppsögnunum í stjórn Eflingar og sjö kusu gegn. Guðmundur segir að nú sé til umræðu að kalla saman fund á meðal félagsmanna.
„Ég heyri það svona utan af mér að það sé möguleiki í stöðunni að kallaður verði saman félagsfundur, sem myndi þá ákveða framhaldið á þessu. Þá væri jafnvel hægt að hugsa sér það að þessi félagsfundur myndi kjósa þetta fólk í burtu,“ segir Guðmundur.
Ekkert hefur heyrst frá Ragnari Þór Ingólfssyni formanni VR en Vilhjálmur Birgisson lýsti yfir stuðningi við Sólveigu Önnu í gær.
„Hann hefði getað sagt þetta svo sem sem formaður Verkalýðsfélags Akraness en nú er hann kominn í nýja stöðu sem formaður Starfsgreinasambandsins og inni í þessu sambandi eru tugir félaga. Það eitt og útaf fyrir sig er mjög svo athyglivert að hann skuli ekki gagnrýna þessi vinnubrögð að þarna sé rekin heil skrifstofa í verkalýðsfélagi. Þetta er einmitt hlutur sem Vilhjálmur Birgisson á að standa vörð um að geti ekki gerst,“ segir Guðmundur.