Þetta kemur fram í pistli Vilhjálms sem hann birti í dag á vefsíðu VLFA.
„Það er skoðun formanns félagsins að það hafi verið mistök hjá lýðræðis kjörinni stjórn Eflingar að velja hópuppsögn til að ráðast í þær nauðsynlegu skiplagsbreytingar sem þau höfðu boðað í sinni kosningabaráttu. Það er mat formanns að stjórn Eflingar hefði getað náð fram þeim skiplagsbreytingum án þess að grípa til þessara hópuppsagna,“ skrifar Vilhjálmur.
Vilhjálmur hefur verið náinn bandamaður Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar, undanfarin misseri. Studdi hún til að mynda dyggilega við bakið á Vilhjálmi þegar hann var kjörinn formaður Starfsgreinasambandsins á dögunum.
Í samtali við fréttastofu fyrir sléttri viku sagði Vilhjálmur ekki hafa forsendur til að vega og meta hvað lægi að baki hópuppsögnunum.
Nú segist hann ekki geta stutt hópuppsagnirnar.
„Til að svara spurningunni aftur um hvort formaður styðji þessa hópuppsögn hjá Eflingu, þá er stutta svarið að sjálfsögðu, nei, ekkert frekar en aðrar hópuppsagnir sem eru á íslenskum vinnumarkaði og vill formaður ítreka að hans mat er að hægt hefði verið að ná fram skipulagsbreytingum með öðrum hætti en hópuppsögn,“ skrifar Vilhjálmur.
Segist hann þó bera traust til Sólveigar Önnu, þrátt fyrir að geta ekki stutt aðgerðirnar eða tekið upp hanskann hvað þær varðar.
„En hann tekur hanskann upp fyrir henni sem öfluga baráttukonu fyrir að standa vörð um þá sem höllustum fæti standa á íslenskum vinnumarkaði,“ skrifar Vilhjálmur og á þar við Sólveigu Önnu.