Antonio Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skoðaði vegsummerki eftir hernað Rússa í nágrenni Kænugarðs í gær og fundaði síðan með Zelenskyy Úkraínuforseta og helstu ráðamönnum öðrum í forsetahöllinni. Hann ítrekaði að innrás Rússa væri skýlaust brot á stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna eins og hann hefði sagt Putin Rússlandsforseta í Moskvu fyrr í vikunni.

„Úkraína er miðdepill óbærilegrar sorgar og sársauka. Ég upplifði það mjög skýrt í dag í kringum Kíev,“ sagði í Kænugarði í gærkvöldi.
Mikilvægt væri að Alþjóðaglæpadómstóllinn og aðrar stofnanir Sameinuðu þjóðanna drægi þá sem sekir væru um mannréttindabrot og aðra stríðsglæpi til ábyrgðar.
„Ég vil að úkraínska þjóðin viti að heimurinn sér ykkur, heyrir í ykkur og ber lotningu fyrir þrautseigju ykkar og staðfestu,“ sagði Guterres.

Skömmu eftir sameiginlegan fréttamannafund Guterres og Zelenskyys gerðu Rússar eldflaugaárás á íbúðahverfi í Kænugarði. Ung fréttakona á vegum Free Europe sem Bandaríkjamenn fjármagna lést og tugir manna særðust.

„Þetta segir mikið um raunverulegt viðhorf Rússa til alþjóðastofnana, um tilraunir rússneskra yfirvalda til að auðmýkja Sameinuðu þjóðirnar og allt það sem stofnunin stendur fyrir. Þess vegna krefst þetta viðeigandi öflugra viðbragða,“ sagði Zelenskyy í dag.
Bandaríkjaþing uppfærði í gær lána- og leigulögin (Lend and Lease) sem sett voru að frumkvæði Franklin D. Roosevelt forseta Bandaríkjanna árið 1941 til að aðstoða Breta í stríðinu gegn Þýskalandi nasismans. Það gefur Joe Biden núverandi forseta ríkar heimildir til að koma vopnum til Úkraínumanna fljótt og örugglega án þess að slíkar ákvarðanir þurfi að fara í gegnum flókna stjórnsýslu og skrifræði.

Nancy Pelosi forseti fulltrúadeildar þingsins segir tilganginn með lögunum nú hinn sama og árið 1941.
„Við skulum hafa það á hreinu að Rússar gerðu innrás með það yfirlýsta markmið að binda enda á frelsi og sjálfstjórn Úkraínu,“ sagði Pelosi við afgreiðslu frumvarpsins sem nú bíður staðfestingar forsetans.
Rússar hafi hins vegar mætt ótrúlega öflugri mótspyrnu Úkraínumanna sem fórnuðu lífi sínu fyrir land sitt og lýðræðið í heiminum öllum.
„Þetta snýst um frelsi gegn einræði. Alræði gegn lýðræði. Úkraínska þjóðin berst fyrir okkur öll. Við verðum að hjálpa henni,“ sagði Nancy Pelosi.