Umfjöllun Ingibjargar Sólrúnar verður meðal annars byggt á afar fróðlegu erindi sem hún flutti nýverið á ráðstefnu Alþjóðastofnunar Háskóla Íslands.
Svo mæta þau Bryndís Haraldsdóttir og Björn Leví Gunnarsson alþingismenn. Bæði sitja þau í Fjárlaganefnd og tóku þátt í að spyrja fjármálaráðherrann út úr í vikunni um söluna á hlutabréfunum í Íslandsbanka. Svo kom reyndar í ljós að allt er þetta auðvitað Bankasýslunni að kenna, svo segir að minnsta kosti formaður Framsóknarflokksins.
Guðmundur Árni Stefánsson er snúinn aftur í íslenska sveitarstjórnarpólitík í sínum gamla heimabæ. Hann mætir ásamt tveimur nýliðum sem virðast njóta mikils fylgis, Ásdísi Kristjánsdóttur sem er líklegasta bæjarstjóraefnið i Kópavoginum og Einari Þorsteinssyni, oddvita Framsóknar í Reykjavík, manninum sem virðist geta valdið núverandi meirihluta umtalsverðum óróa.
Í lok þáttar verður Erna Bjarnadóttir, varaþingmaður, hagfræðingur og fyrrverandi starfsmaður Bændasamtakanna. Þau Kristján ræða matvælaverð í heiminum sem er á hraðri leið í öfuga átt, sumsé upp á við. Er þessi þróun óumflýjanleg og jafnvel viðvarandi?
Sprengisandur verður í beinni á slaginu tíu á Bylgjunni og Stöð 2 Vísi í spilaranum hér að neðan: