Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem birtist á vef Chelsea.Þar segir talsmaður Abramovich að ekkert sé til í því að rússneski auðjöfurinn ætli sér að svíkja loforð um að hagnaður sölunnar á Chelsea fari til góðgerðamála.
Sama á við um þær sögusagnir að Roman vilji fá peninginn til baka sem hann hafi sett í Chelsea síðan hann keypti félagið árið 2003. Talið er að Abramovich hafi alls „lánað“ Chelsea rúmlega einn og hálfan milljarð punda á þeim tíma.
Í yfirlýsingunni segir að sjálfstæðir aðilar vinni nú að sölunni, fólk tengt góðgerðasamtökum sem sjái til þess að staðið sé við öll loforð og allt sé gert eftir bókinni. Abramovich sjálfur hefur ekki komið nálægt neinu tengdu sölunni á Chelsea.
Þá segir einnig að það sé rangt að Roman hafi beðið um hærra verð fyrir félagið á síðustu stundu.
Í von um að finna réttan eiganda til lengri tíma hafi Roman hins vegar beðið um staðfestingu að nýr eigandi myndi leggja ákveðið fjármagn í yngri lið félagsins, kvennaliðið, uppbyggingu heimavallar liðsins og góðgerðasamtökin sem Chelsea rekur.