Þó nokkrum var skutlað heim af lögreglu vegna ölvunar. Tilkynnt var um öskrandi mann liggjandi á götunni í miðbænum en hann hafði ökklabrotið sig. Hann var fluttur á slysadeild til frekari aðhlynningar.
Óður hundur var til vandræða í Garðabæ en hann réðst á fólk og önnur dýr. Þegar lögregla kom á vettvang var eigandi hundsins kominn á svæðið.
Lögreglu var tilkynnt um mann sem hafði kastað upp í leigubifreið og neitaði að borga fyrir farið. Eftir að lögregla mætti á staðinn greiddi maðurinn farið og fór heim.
Lögregla ætlaði að stöðva bifreið sem ók Vesturlandsveg en þegar ökumanni var gefið merki um að stöðva, gaf hann í. Ökumaðurinn var með tvo farþega og keyrðu þeir meðal annars á móti umferð á Vesturlandsvegi. Þegar bílinn var stöðvaður reyndu þeir að hlaupa frá lögreglu en voru handteknir stuttu síðar.