Birgitta fundaði með yfirkjörstjórn í dag en eins og fram kom í frétt Vísis fyrr í dag mun yfirkjörstjórn vísa málinu til héraðssaksóknara. Birgitta segir sjálf að undirskrift hennar hafi verið fölsuð en listinn vill ekki kannast við það.
Birgitta fékk sjálf tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri við yfirkjörstjórn en í færslu á Facebook í dag segist hún harma að vera í vistarböndum á lista sem hún mun ekki kjósa og stóð aldrei til að kjósa.
„Ég harma að málið sé á þeim stað að þeir sem bera ábyrgð á skjalafalsi sem og fölsun nafns inn á lista hafi ekki séð að sér og sýnt vilja til að gagnast við þessum broti. Slík vinnubrögð er ekki hægt að láta óafskipt, því er það niðurstaða fundarins að ég óskaði eftir að þetta væri sett í lögformlega rannsókn,“ segir Birgitta.
Hún segir ljóst að laga þurfi verklag og ferla hjá kjörstjórn til að tryggja að svona lagað geti ekki átt sér stað. Ánægjuefni sé ef þetta mál verði til þess að úrbætur verði gerðar.
„Það er mjög alvarlegt ef ferlar í kringum kosningar séu ekki hafnir yfir allan vafa, eins og raunin var í kringum síðustu Alþingiskosningar. Vegna þess hve mikilvægt að þessi ferli séu fagleg og séu traustsins verð finnst mér nauðsynlegt að bregðast við þessari stöðu,“ segir Birgitta.