Dómur féll í málinu í Héraðsdómi Norðurlands eystra 5. maí síðastliðinn. Öll brotin sem maðurinn er dæmdur fyrir voru framin föstudagskvöldið 25. september 2020 en maðurinn var ákærður og sakfelldur í þremur liðum.
Fyrir það fyrsta var maðurinn dæmdur fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa tvívegis skallað lögreglumann í andlit og bitið tvívegis í vinstra læri hans, þegar lögreglumaðurinn var við skyldustörf fyrir utan Olís-verslun. Lögreglumaðurinn hlaut fyrir vikið fimm sentímetra mar vinstra megin á nefi, þriggja sentímetra mar á höku, mar á innanverðum kinnum, mar og tvær punktblæðingar á innanverðri neðri vör og tvö línuleg sár á vinstra læri eftir bitin.
Þá var maðurinn sakfelldur fyrir að hafa hótað öðrum lögreglumanni lífláti fyrir utan Olís-verslunina og fyrir að hafa hótað þriðja lögreglumanninum tvívegis lífláti á lögreglustöðinni á Akureyri.
Maðurinn var auk þess sakfelldur fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið undir áhrifum áfengis að Olís-versluninni. Í blóði mældist vínandamagn 1,75 prómíl.
Maðurinn iðrist brotanna og hafi snúið lífinu við
Þá var maðurinn sakfelldur fyrir brot í nánu sambandi og brot gegn barnaverndarlögum með því að hafa á heimili sínu veist með ofbeldi að sambýliskonu sinni og barnsmóður, í viðurvist sonar þeirra og stjúpsonar mannsins. Fram kemur í dómi að maðurinn hafi tekið sambýliskonu sína hálstaki, veitt henni ítrekuð högg í höfuð, slegið höfði hennar í vegg og hrint henni. Þessi aðför hafi haft þær afleiðingar að hún hlaut rispur og yfirborðsáverka á hálsi, heilahristing og hrufl á hægri fótlegg.
Maðurinn játaði sök fyrir dómi í öllum ákæruliðum. Fram kemur að fyrir dómi hafi maðurinn sýnt iðrun og sagst hafa verið illa áttaður og í miklu uppnámi þetta kvöld vegna álags sem á honum hafi hvílt vegna vinnu fjarri heimili, fjárhagsáhyggja og áfengisneyslu.
Hann hafi gert breytingar á lífi sínu í framhaldinu, fjárfest í húsnæði með eiginkonu sinni, brotaþola í málinu, fengið fasta vinnu og ákveðið að láta áfengi alfarið eiga sig.