„Ég held að það yrði svolítið erfitt fyrir þá að útskýra það fyrir kjósendum sínum, því að þetta er skýrt ákall um breytingar, og þeir ná mjög góðum árangri. Ef þeir ætla að viðhalda því sem er, eins og Viðreisn gerði síðast, þá held ég að það fólk sem kaus það myndi nú spyrja þá kjörnu fulltrúa áleitinna spurninga,“ sagði Guðlaugur.
Rætt var við Hannes og aðra um nýliðnar sveitarstjórnarkosningar og önnur atriði í Íslandi í dag í kvöld. Sjá má innslagið hér að ofan, í kringum mínútu tíu.
Hannes Hólmsteinn segir að um land allt hafi Samfylkingin beðið ósigur í kosningunum, en að óánægjufylgi gegn meirihlutanum hafi heldur skilað sér til Framsóknarflokks í stað Sjálfstæðisflokks, og svo til Pírata og Sósíalistaflokksins í öðrum tilvikum.

„Hér í Reykjavík er þetta aðallega persónulegur ósigur Dags Bergþórusonar Eggertssonar borgarstjóra. Hann byrjaði sem borgarstjóri með 36%, hann fer síðan niður í 26% og nú er hann kominn niður í 20%. Ég hugsa nú að óvinir hans, ég er nú ekki einn af þeim, að þeir myndu gjarnan vilja að hann tæki við forystu Samfylkingarinnar, af því að þá myndi það sama gerast hjá Samfylkingunni og gerist hjá honum,“ segir Hannes.
„Einar Gnarr“
Þegar spáð er í spilin í stjórnarmyndunarviðræðunum fram undan segir Hannes að líta þurfi til þess annars vegar hvað teljist líklegt að gerist og hins vegar til þess hvað sé eðlilegt að gerist.
„Það sem ég held að sé líklegt er að Dagur Bergþóruson Eggertsson muni gera Framsóknarflokknum tilboð um það að Einar Þorsteinsson verði borgarstjóri og að hann verði þá sjálfur forseti borgarstjórnar. Þá verður það sama og þegar Jón Gnarr var borgarstjóri og Dagur forseti borgarstjórnar. Þá réð Dagur öllu og ef þetta gengur nú eftir förum við kannski að kalla Einar Einar Gnarr,“ segir Hannes.
„En það sem væri eðlilegast, þar sem Framsóknarflokkurinn fór fram undir merkjum breytinga, væri að Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur mynduðu nýjan meirihluta með Flokki fólksins og Viðreisn, og breytti stefnunni raunverulega,“ segir Hannes.