Elín Jóna gekk í raðir Ringköbing fyrir rúmu ári síðan en lék áður með Vendsyssel í Danmörku í þrjú ár. Hún á eitt ár eftir af tveggja ára samningi sem hún gerði við Ringköbing í fyrra.
Elín hefur glímt við mjaðmarmeiðsli undanfarið og greindi frá því á samfélagsmiðlinum Instagram að meiðslin væru verri en búist hafði verið við. Hún hefur þegar farið í aðgerð en löng endurhæfing er fram undan.
„Því miður endaði tímabilið mitt ekki eins og það átti. Meiðslin voru verri en ég hélt og aðgerð því miður þörf. Aðgerðin gekk vel og ég kem sterk til baka á völlinn eftir 6-8 mánuði,“ skrifaði Elín á Instagram.
Elín fær íslenskan liðsfélaga í sumar en Lovísa Thompson hefur gengið frá samningi við Ringköbing og mun spila með liðinu næsta vetur. Hún kemur á láni frá Val.