Eriksen hneig niður og fór í hjartastopp er Danmörk mætti Finnlandi á Parken í Kaupmannahöfn síðasta sumar. Eriksen var endurlífgaður á vellinum og við tók um hálfs árs endurhæfing áður en hann sneri aftur á völlinn með Brentford í ensku úrvalsdeildinni í febrúar.
Töluverð fjölgun hefur orðið á svokölluðum „hjartahlaupurum“ (d. hjerteløbere) í landinu frá því að atvikið varð. Þeir eru hluti af verkefni sem Trygfonden (Öryggissjóðurinn) stendur að.
Fólk sem hefur lokið fyrstu hjálpar námskeiði er þá með smáforrit í símanum sínum sem sendir tilkynningu ef einhver fær hjartaáfall í nágrenninu. Viðkomandi getur þá í mörgum tilfellum brugðist fyrr við en sjúkraliðar.
Grethe Thomas, verkefnastýra hjá Trygfonden, segir við Berglinske Tidinde að 700 manns hafi skráð sig helgina sem Eriksen hneig niður. Síðan þá hafi um 500 bæst við vikulega.
„Við sáum gríðarlega aukningu skráninga strax eftir að Christian Eriksen hneig niður á Parken, það var mikil eftirspurn eftir því að verða hjartahlaupari,“ segir hún.
Tæplega 114 þúsund hjartahlauparar voru skráðir í Danmörku fyrir ári síðan. Sú tala er komin nær 140 þúsund í dag og var aukningin því um rúmlega 25 þúsund, eða 23 prósent á einu ári.
„Hjartahlaupararnir eru nauðsynlegir fyrir þá sem fá hjartaáfall, til að auka lífslíkur og lífsgæði. Einfaldlega vegna þess að þeir í næsta nágrenni,“
„Við vitum að lífslíkur falla um tíu prósent fyrir hverja mínútu sem líður,“ segir Thomas.
Í Danmörku fá um fimm þúsund manns hjartaáfall utan sjúkrahúsa árlega, eða um 13 manns á dag að meðaltali.