Dómurinn sneri þannig við dómi héraðsdóms frá árinu 2020. Áslaug starfaði sem forstöðumaður hjá Orku náttúrunnar, dótturfélagi Orkuveitu Reykjavíkur, en var sagt upp árið 2018.
Í dómi Landsréttar segir meðal annars að Orkuveitan hafi vegið að æru Áslaugar með síðbúnum skýringum um frammistöðuvanda. Áslaug segist í Facebook-færslu í dag þakklát fyrir að málinu sé lokið. Málið vakti mikla athygli á sínum tíma en Bjarni Bjarnason forstjóri Orkuveitunnar steig tímabundið til hliðar vegna þess.
Samgleðst Áslaugu Thelmu
Berglind Rán Ólafsdóttir framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar segir að fyrirtækið muni ekki áfrýja dómi Landsréttar.
„Við ætlum að una þessum dómi, sem er ólíkur dómi héraðsdóms. En svona er þetta, hann féll svona, og ég í rauninni samgleðst Áslaugu Thelmu með niðurstöðuna,“ segir Berglind.

Þið eruð þarna gerð skaðabótaskyld, hafið þið rætt skaðabætur við Áslaugu?
„Já, það er rétt. Okkar lögfræðingur er búinn að vera í samskiptum við lögfræðing Áslaugar Thelmu og það stendur til að hittast í næstu viku og fara að ræða það mál í framhaldinu.“ Ekkert liggi þó fyrir um upphæð skaðabótanna.
„Niðurstaðan er skýr. Þetta er vandaður dómur og kemur ekki til greina að áfrýja. Og við hefðum átt að vanda okkur betur þá. Og við tökum því,“ segir Berglind.
Er þetta áfellisdómur yfir fyrirtækinu?
„Nei, það held ég ekki. Við lifum öll og lærum. Og við höfum gert það og ætlum að halda áfram að gera það,“ segir Berglind.