Berglind sem býr á áttundu hæð á Miðvangi 41, blokkinni við bílastæðið þar sem skotið var á tvo bíla í morgun, var enn skjálfandi þegar fréttamaður náði tali af henni skömmu eftir að búið var að handtaka skotmanninn.
Berglind sagði í viðtalinu hafa fengið hringingu frá syni sínum í morgun þegar hann var á leið í vinnuna. Hún vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið þegar hann tjáði henni að sérsveitin væri mætt fyrir utan blokkina hennar. Þegar hún fór svo út á svalir sá hún alla bílana fyrir utan og skildi ekkert hvað var að gerast.
„Ég var mjög hrædd og óttaslegin,“ sagði hún aðspurð hvernig henni hefði liðið í morgun.
„Og er enn skjálfandi af hræðslu af því maður veit ekkert. Maður verður svo rosalega óöruggur. Og fær ekkert að vita neitt.“
Skortur á upplýsingum
Berglind fékk engar upplýsingar um hvað væri í gangi frá lögreglumönnunum sem voru á stigaganginum í blokkinni. Hún uppgötvaði ekki hvað væri að gerast fyrr en hún kveikti á útvarpinu.
Þar að auki fór hún reglulega út í glugga til að athuga hvað væri í gangi en þorði ekki að fara niður til að kanna málið.
„Klukkan rúmlega tíu fer ég til að athuga hvort ég megi fara út af því ég ætlaði að fara að líta á foreldra mína,“ segir Berglind.
En þá var henni meinað að fara út og var sagt að fara aftur upp. Henni var samt ekkert sagt hvað væri um að vera og fannst óþægilegt að fá ekkert að vita nema að heyra það í útvarpinu.
„Og ég vissi ekkert og fékk engar upplýsingar um hvað væri um að vera nema að kveikja á útvarpinu.“
Hún fylgdist grannt með út um gluggann og af svölunum og sá þegar lögreglan handtók manninn. Sjálf sagðist hún ekkert vita hvaða maður þetta væri.