Verðbólga síðustu tólf mánuði mælist nú 8,8 prósent samkvæmt neysluvísitölu Hagstofu Íslands. Verðbólga hefur ekki verið eins mikil á Íslandi frá því á haustmánuðum 2009.
Vísitala neysluverðs hækkaði um 1,4 prósent á milli mánaða. Í Hagsjá Landsbankans segir að þessi hækkun hafi verið viðbúin.
„Að þessu sinni var enginn undirliður sem kom verulega á óvart. Bensín og olíur og föt og skór hækkuðu meira en við áttum von á, matarkarfan og flugfargjöld til útlanda hækkuðu aftur á móti minna en við áttum von á,“ segir í Hagsjánni.
Þar kemur einnig fram að húsnæði og bensín útskýri meira en helming af ársverðbólgunni. Reiknar Landsbankinn sem fyrr segir með því að verðbólga nái 9,5 prósent toppi í næsta mánuði, en fari svo hjaðnandi.