Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hyggst leggja fram frumvarp á Alþingi í haust um að taka upp svæðaskiptingu á kvóta strandveiða á ný. Frá þessu greindi Svandís í pistli í Morgunblaðinu á dögunum, og sagði það fyrirkomulag sem ríkt hefur frá árinu 2019 hafi mistekist, og sé farið að vinna gegn þeim byggðum sem því var ætlað að treysta.
Þessu er formaður Flokks fólksins ósammála, og gagnrýnir áformin harðlega.
„Hún er að gera að engu þá miklu vinnu sem að var lögð í það að reyna að koma á frekara jafnræði hringinn í kringum landið hvað lýtur að strandveiðunum,“ segir Inga Sæland, formaður Flokks fólksins.
Inga var varaformaður atvinnuveganefndar á síðasta kjörtímabili en Lilja Rafney Magnúsdóttir, flokkssystir Svandísar, var formaður. Lilja, sem nú er varaþingmaður, hefur gagnrýnt sjávarútvegsráðherra vegna málsins.
Inga segir að góð sátt hafi ríkt um núverandi fyrirkomulag, þegar því var komið á.
„En eins og hún er að haga sér núna þá er hún bara að spóla þetta allt saman upp og gerir í engu ráðleggingar sinna flokkssystkina. Til dæmis eins og bæði Bjarna Jónssonar og svo ég tali nú ekki um Lilju Rafney Magnúsdóttur sem að var formaður atvinnuveganefndar og einmitt barðist mjög ötullega og í samstöðu allrar nefndarinnar meira og minna og jafnvel sjávarútvegsráðherra fyrrverandi Kristján Þór Júlíusson. Hann var vinveittari strandveiðum heldur en núverandi sjávarútvegsráðherra, virðist vera.“
Vinnubrögð sjávarútvegsráðherra lýsi vanvirðingu við þá vinnu sem fór í að koma á núverandi fyrirkomulagi. Áformin séu ekki byggð á rökum.
„Við vitum það að stórútgerðarsérfræðingarnir þeir hafa nú gjarnan bara viljað nú gjarnan losna við þessar strandveiðar. Mér sýnist þeim ætla að takast það og hvort sem að þetta er ráðgjöf frá þeim eða hvaðan annars staðar þá er hún allaveganna ekki góð fyrir strandveiðarnar og brothættar byggðir í landinu, það er nokkuð ljóst.“