Kynnti gjörningalist fyrir ÆÐI strákunum
Strákarnir heimsóttu listamanninn Ragnar Kjartansson sem ræddi við þá um listsköpun, listamannalífið og gjörninga. Markmið þeirra er að læra að verða listamenn og líklega hefur enginn verið betur til þess fallinn að kynna þá fyrir gjörningaheiminum en sjálfur gjörningameistarinn Ragnar Kjartansson, eða Raggi Kjartans eins og hann er yfirleitt kallaður.
Æði strákarnir notuðu tækifærið vel og spurðu því Ragnar spjörunum úr varðandi listina og gjörninga. Í orðsins fyllstu merkingu.

Patrekur málaði listaverk með typpinu
Þegar Ragnar var búinn að leysa niðrum sig, setja upp í sig tvo vindla og byrjaður að hamra á píanóið kom upp sú hugmynd að Patrekur myndi mála listaverk með typpinu.
„Ég alveg lowkey elska að vera nude! Þannig að ég auðvitað tók því.“
Gjörningurinn þróaðist svo skrautlega áfram og á sama tíma og Æði strákarnir vissu ekki hvaðan á þeim stóð veðrið voru þeir komnir á bólakaf í gjörninga-senuna, hver með sitt óskilgreinda hlutverk.
„Ég var bara í sjokki og vissi ekkert hvað ég ætti að gera. En ég fór samt bara á fjórar, eins og vanalega,“ sagði Binni Glee þegar hann lýsti upplifun sinni.
Hér fyrir neðan er hægt að sjá klippu frá þessum sögulega gjörning Ragnars og Æði strákanna.
„Raggi að vera pínu kinki“
Bassi fór í einhverskonar krákuhlutverk þar sem hann labbaði um, öskrandi og sló alla með kodda. Honum fannst þó nektin kannski fullmikil á köflum fyrir sinn smekk.
„Mér finnst eitthvað óþægilega mikil nekt í gjörningi. En kannski var það bara Raggi að vera pínu kinki!“

Typpalistaverkið varðveitt á vinnustofu Ragnars
Æði strákarnir sögðust þó allir hafa skemmt sér konunglega þó að upplifunin hafi verið óvænt og öðruvísi. Patrekur Jaime er hæst ánægður með listaverkið sem hann segir vera merki um ástarsorg. Hjarta með ösku inn í.
Verkið mun hanga uppi á vinnustofu Ragnars og verður forvitnilegt að sjá hvort að það seljist til einhverra listaverkasafnara í framtíðinni.

Fyrir áhugasama er hægt að nálgast alla ÆÐI þættina á Stöð 2+.