Fótbolti

Raphinha genginn í raðir Barcelona

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Joan Laporta, forseti Barcelona, og nýjasta viðbótin við leikmannahópinn.
Joan Laporta, forseti Barcelona, og nýjasta viðbótin við leikmannahópinn. Barcelona

Þrátt fyrir að því virðist að eiga engan pening heldur spænska knattspyrnuliðið Barcelona áfram að festa kaup á nýjum leikmönnum. Nýjasta viðbótin er brasilíski vængmaðurinn Raphinha. 

Hinn 25 ára gamli Raphinha hefur staðið sig með prýði hjá Leeds United í ensku úrvalsdeildinni undanfarin tvö ár. Þar áður lék hann með Rennes í Frakklandi og Sporting Lissabon í Portúgal. Hann kostar Barcelona 58 milljónir evra.

Það var snemma ljóst í sumar að Raphinha yrði ekki áfram í herbúðum Leeds United en ásamt því að vera eftirsóttur af Lundúnarliðunum Chelsea, Arsenal og Tottenham Hotspur þá fylgdist Barcelona grannt með gangi máli. 

Raphinha vildi alltaf fara til Barcelona og fékk ósk sína uppfyllta. Hann var tilkynntur sem nýjasti leikmaður Börsunga í dag. Skrifar hann undir samning til ársins 2027.

Þrátt fyrir að standa í allskyns fjármálalimbó þá hefur Barcelona verið duglegt að sækja leikmenn í sumar. Franck Kessié og Andreas Christensen komu á frjálsri sölu og þá hefur félagið verið orðað við haug af leikmönnum. 

Til að fjármagna allt þetta virðist sem Frenkie de Jong þurfi að fara til Manchester United en sú sala strandar á þeirri staðreynd að Börsungar skulda Frenkie dágóða summu sem hann vill ekki láta eftir. Það breytir ekki því að Barcelona er komið með nýjan brasilískan vængmann en þeir hafa oftar en ekki gert gott mót á Nývangi.


Tengdar fréttir

Segir að samkomulag um De Jong sé í höfn en leikmaðurinn vilji ekki fara

Félagsskiptasérfræðingurinn Fabrizio Romano segir frá því á Twitter-síðu sinni að Manchester United og Barcelona hafi komist að samkomulagi um kaupverðið á miðjumanninum Frenkie de Jong. Enn eigi þó eftir að ganga frá samningum við leikmanninn sem vill halda kyrru fyrir hjá Börsungum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×