Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum en svæðið hefur verið lokað almenningi frá því klukkan fimm í gærmorgun. Vegna lokunar á svæðinu verður tækifærið nýtt í dag til að lagfæra gönguleið A, en það er sú gönguleið sem flestir fara þegar farið er að gosstöðvunum. Einnig verður unnið að öðrum lagfæringum á svæðinu.
Opnað verður fyrir aðgengi að gosstöðvunum klukkan tíu á morgun þriðjudag að öllu óbreyttu. Búist er við vindhraða á bilinu átta til tólf metrum á sekúndu á gönguleiðinni í dag auk strekkings og úrkomu. Því gæti gönguleiðin verið blaut eða hál.
Björgunarsveitarfólk að hvíla sig
Að sögn lögreglunar á Suðurnesjum er nú vont veður upp á fjalli, mikil rigning og mun hvessa verulega eftir hádegi.
„Björgunarsveitin Þorbjörn er með sitt fólk í hvíld, sem er vel skiljanlegt þar sem mikið hefur mætt á þeim undanfarið. Við viljum benda á að eins og staðan er núna þá er engin björgunarsveitarmaður á fjallinu og því ekki hægt að aðstoða þá sem þurfa aðstoð þarna í dag komi eitthvað upp á,“ segir í Facebook-færslu lögregluembættisins.
„Það eru vinsamleg tilmæli frá okkur til ykkar að gefa starfsfólki sem er við vinnu til að bæta aðgengi fólks að gosinu við gosstöðvarnar rými til að athafna sig og ekki síður að biðla til ykkar að fara ekki þarna upp í dag þar sem ekki er hægt að tryggja öryggi ykkar.“ Góð veðurspá sé fyrir morgundaginn og því megi búast við að opið verði inn á svæðið.
Greint hefur verið frá því að þó nokkrir ferðamenn hafi reynt að koma sér að gosstöðvunum í gær en verið snúið við af björgunarsveitum. Almannavarnir hafa biðlað til almennings og fólks í ferðaþjónustunni að láta ferðamenn vita af lokuninni.
Fréttin hefur verið uppfærð.