Geimskotið markar upphaf nýs tímabils tunglferða en skotglugginn svokallaði mun opnast klukkan 12:33 (að íslenskum tíma) þann 29. ágúst og verður opinn í um tvo tíma. Náist ekki að skjóta eldflauginni á loft þá, stendur til að reyna 2. eða 5. september.
Orion-geimfari verður skotið út í geim með nýrri tegund eldflauga sem kallast Space Launch System. Um borð í geimfarinu verða gínur, sem búnar verða hinum ýmsu skynjurum og vonast vísindamenn til að fá svör við því hvaða áhrif tunglferð hefði á mannslíkamann.
Sjá einnig: Öflugasta eldflaugin aftur á skotpall fyrir tunglskot
Geimferð Orion-geimfarsins á að taka um 42 daga. Takist að skjóta farinu á loft þann 29. ágúst á að lenda því aftur á jörðinni þann 10. október.
Þetta geimskot kallast Artemis-1. Fyrsta mannaða tunglferðin verður Artemis-3 og verður það í fyrsta sinn sem menn fara til tunglsins frá Appollo-17 árið 1972. Vonast er til þess að Artemis-3 fari á loft árið 2025 eða 2026.
Þegar kemur að geimskotum eru allar áætlanir og dagsetningar háðar miklum breytingum

Artemis-1 snýr þó ekki eingöngu að því að kanna getu og öryggi SLS-eldflaugarinnar og Orion-geimfarsins. Einnig stendur til að koma flota smárra gervihnatta sem kallast CubeSat á braut um tunglið. Þá á svo meðal annars að nota til að leita að ís á og undir yfirborði tunglsins, sem hægt verður að nota við að koma upp mannaðri bækistöð á tunglinu í framtíðinni.
Frekari upplýsingar um CubeSat má sjá í myndbandinu hér að neðan.
Vilja afla mikilla upplýsinga
Starfsmenn NASA birtu nýverið yfirlit yfir hvaða markmiðum þeir vildu ná með Artemis-1. efst á listanum var það að ganga úr skugga um að hitaskjöldur Orion-geimfarsins þoldi hitann sem fylgir því að koma aftur inn í gufuhvolf jarðarinnar eftir ferð til tunglsins.
Auk þess vilja þeir kanna hreyfla Orion en geimfarið er búið 24 smáum hreyflum sem eiga að hreyfa geimfarið til og frá og jafnvel snúa því. Á braut um tunglið verða hreyflarnir keyrðir í gang og geta þeirra könnuð ítarlega.
Einnig á að kanna stýrikerfi Orion. Geimfarið á að vita hvar það er á hverjum tímapunkti og hvert það snýr. Til þess notar geimfarið tvær myndavélar sem taka myndir af stjörnunum í kringum geimfarið og reina út frá þeim hvar það er staðsett. Vara-staðsetningarkerfi geimfarsins greinir staðsetningu þess út frá tunglinu og jörðinni.
Myndavélar verða festar við sólarrafhlöður Orion og verður geimferðin notuð til að finna bestu leiðirnar til að safna myndefni úr þeim og senda til jarðarinnar.
Á blaðamannafundi í síðustu viku sagði einn af forsvarsmönnum NASA að reynt yrði að hafa beinar útsendingar frá þessum myndavélum. Myndefnið yrði þó í samkeppni við vísindagögn og því færu allar útsendingar eftir því hversu vel gengur að streyma gögnum frá Orion aftur til jarðarinnar.
Vonast er til þess að mannkynið muni svo nota tunglið sem stökkpall til Mars og lengra út í sólkerfið.