Weisselberg játaði að hafa ekki greitt skatt af rúmlega 1,7 milljóna dala launagreiðslum í formi fríðinda og gekkst við öllum fimmtán ákærunum gegn honum.
Meðal annars er hann dæmdur fyrir að láta fyrirtækið greiða skólagjöld barna hans og húsaleigu. Fyrirtækið keypti bíla fyrir hann og eiginkonu hans, auk húsgagna og raftækja, svo eitthvað sé nefnt.
Allt þetta var skráð sem fríðindi í bókhald fyrirtækisins, svo Weisselberg þyrfti ekki að greiða launatengda skatta af því. Trump Organization, fyrirtækið sjálft, var einnig ákært fyrir skattsvik, fjársvik og skjalafals.
Þegar réttarhöldin gegn gegn Weisselberg hófust síðasta sumar lýsti fjármálastjórinn yfir sakleysi sínu.
AP fréttaveitan segir að samkvæmt áðurnefndu samkomulagi muni Weisselberg, sem er 75 ára gamall, ekki vera dæmdur til meira en fimm mánaða fangelsisvistar, sem hann mun afplána í Rikers Islandi fangelsinu í New York. Þá verður Weisselberg gert að greiða um tvær milljónir dala í sektir.
Enn sem komið er, er Weisselberg sá eini sem hefur verið ákærður vegna rannsóknar saksóknara í New York á fyrirtæki Trumps. Lögmenn hans hafa haldið því fram að hann hefði verið ákærður til að refsa honum fyrir að neita að veita rannsakendum skaðlegar upplýsingar um Trump og fyrirtæki hans.
Verið var að skoða það að ákæra Trump sjálfan en AP segir að sú rannsókn sé í nokkurs konar dvala eftir að nýr héraðssaksóknari tók við störfum fyrir nokkrum mánuðum. Rannsóknin er þó formlega enn yfirstandandi.
Trump stendur einnig frammi fyrir annarri rannsókn varðandi það hvort hann og fyrirtæki hans hafi blekkt banka og skattyfirvöld varðandi raunveruleg verðmæti eigna fyrirtækisins. Hann hafi ýmist ýkt virði þeirra til að fá hagstæðari lán eða gert lítið úr þeim til að komast hjá skattgreiðslum.