Þetta kemur fram í tölum frá Ríkislögreglustjóra sem sendar voru á fjölmiðla að beiðni Ríkisútvarpsins í kvöld. Þar kemur fram að tölfræðiupplýsingar um mál þar sem skotvopni hefur verið beitt séu aðeins fyrirliggjandi í manndrápsmálum. Því sé ekki hægt að segja til um hve mörg mál hafi komið upp þar sem skotvopni var beitt án þess að einstaklingur hafi látist.
Samkvæmt upplýsingunum létust tveir vegna skotárásar á árunum 1990 til 1999 og tveir sömuleiðis árin 2000 til 2009. Þá hafi einn látist eftir að hafa verið skotinn árin 2010 til 2019 og einn árin 2020 og 2021. Inn í þetta er ekki tekið málið sem upp kom á Blönduósi í gær.
Fram kemur í tilkynningu lögreglu að samkvæmt þessu séu að jafnaði um ellefu prósent manndrápsmála á Íslandi framin með skotvopni. Fjöldi slíkra mála á hverjum áratug hafi elngi vel verið svipaður.
Þá hafi þann 1. janúar síðastliðinn 47.552 haglabyssur verið skráðar hér á landi vegna Íþróttaskotfimi eða veiða, 121 vegna atvinnu og 54 vegna söfnunar. Þeir tuttugu einstaklingar sem flest skotvopn eigi, eigi samanlagt 2.052 skotvopn eða að meðaltali tæplega 103 vopn hvert.