Þrátt fyrir að hafa færst aftar á miðjuna í stjórnartíð þjálfarans Þorsteins Halldórssonar skoraði Dagný tvö mörk í 6-0 sigrinum gegn Hvíta-Rússlandi á föstudagskvöld og jafnaði þar með við annan Rangæing, Hólmfríði Magnúsdóttur, í 2.-3. sæti yfir markahæstu landsliðskonur Íslands frá upphafi.
Dagný er langmarkahæst í núverandi landsliðshópi Íslands og er nú með 37 mörk í 106 landsleikjum. Aðeins Margrét Lára Viðarsdóttir hefur skorað fleiri, reyndar mun fleiri, eða 79 mörk.
Sara Björk, sem einnig skoraði tvö mörk gegn Hvít-Rússum, var spurð út í Dagnýju á blaðamannafundi í gær en þær hafa spilað saman í landsliðinu í rúm tólf ár:
„Dagný er sérstök sko,“ sagði Sara sposk á svip. „Hún er skemmtileg týpa og yfirhöfuð frábær leikmaður að spila með. Hún býr yfir mikilli reynslu og yfirvegun, er núna búin að spila mikið djúp á miðjunni og hefur leyst þá stöðu ótrúlega vel. Hún er frábær leikmaður og góður liðsfélagi,“ sagði Sara.
„Hver sem kemur inn á þessa miðju verður frábær“
Þær Dagný, Sara og Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir koma til með að spila saman á miðjunni í kvöld, allar leikmenn í hæsta gæðaflokki. Einhver umræða hefur þó verið um það að þær skorti mögulega ákveðna eiginleika sem leiknir, sóknarsinnaðir miðjumenn á borð við Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur og Amöndu Andradóttur hafa.
„Steini ákveður hvaða miðju hann vill byrja með. Samkeppni er alltaf góð og gagnrýni líka alltaf góð. Maður þarf stöðugt að líta á eigin frammistöðu og sjá hvað maður getur gert betur,“ sagði Gunnhildur Yrsa í samtali við Vísi eftir æfingu landsliðsins á sunnudaginn.
„Ég, Dagný og Sara erum búnar að spila endalaust af leikjum saman en hver sem kemur inn á þessa miðju verður frábær. Þessi hópur er magnaður og ég myndi treysta hverjum sem er til að spila. Ég veit að Steini mun velja rétt. Það er bara gaman ef að fólk getur talað um þetta, maður vill umfjöllun og allir hafa sína skoðun,“ sagði Gunnhildur Yrsa.
Ísland mætir Hollandi í Utrecht í kvöld, klukkan 18:45 að íslenskum tíma, í úrslitaleik um öruggt sæti á HM. Tapi Ísland fer liðið í umspil í október. Vísir er á staðnum og flytur fréttir í allan dag af stelpunum okkar.