Þetta kemur fram í nýrri bók sem Maggie Haberman, blaðamaður New York Times, er að gefa út í haust. Fréttamenn CNN hafa séð kafla úr bókinni þar sem farið er yfir síðustu daga Trumps í hvíta húsinu og lygar hans um að umfangsmikið kosningasvindl hafi kostað hann sigur í kosningunum.
Trump hefur aldrei viðurkennt ósigur og viðleitni hans og bandamanna hans til að fá niðurstöðum kosninganna snúið er til rannsóknar hjá nokkrum löggæsluembættum og saksóknurum í Bandaríkjunum. Viðleitni þessi leiddi meðal annars til árásarinnar á þinghúsið í janúar í fyrra, þar sem stuðningsmenn hans reyndu að koma í veg fyrir formlega staðfestingu úrslita kosninganna.
Meðal annars hefur dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna kosningasjóð Trumps til rannsóknar. Forsetinn fyrrverandi hefur safnað fúlgum fjár á grundvelli lyga hans um kosningarnar 2020.
Samkvæmt Haberman virtist Trump í fyrstu sætta sig við tapið. Hann spurði ráðgjafa sína út í hvað hefði farið úrskeiðis og viðurkenndi fyrir starfsfólki sínu að hann hefði tapað. Það var skömmu eftir kosningarnar 3. nóvember 2020 en tónninn í Trump mun hafa breyst hratt.
Í janúar sagðist Trump ekki ætla að yfirgefa Hvíta húsið fyrir Joe Biden. Þá heyrðist Trump segja við Ronna McDaniel, formann Landsnefndar Repúblikanaflokksins, að hann ætlaði ekki að flytja.
„Af hverju ætti ég að fara ef þau stálu þessu frá mér,“ mun Trump hafa sagt við hana.
Haberman segir Trump hafa leitað ráða hjá öllum sem urðu á vegi hans um það hvernig hann gæti haldið völdum eftir embættistöku Bidens og búið áfram í Hvíta húsinu. Þeirra á meðal var þjónninn sem færði honum Diet Coke-dósir þegar forsetinn þáverandi ýtti á hnapp á skrifborði sínu í Hvíta húsinu.