Þetta segir ráðherra í samtali við Morgunblaðið.
Ráðherra segir niðurfellingu gjalda á rafbíla, sem nú fer að renna sitt skeið, hafa verið dýra aðgerð en hún hafi hins vegar skilað því að Ísland sé með annað hæsta hlutfall heims af vistvænum bílum, á eftir Noregi. Og ekki bara það heldur hugarfar fólks í garð rafbíla hafi breyst.
Hann segir að skoða þurfi nýjar leiðir til þess að auka hlutfall rafbíla á vegum landsins. Þá sé mikilvægt að allir tekjuhópar muni geta nýtt sér stuðning til að eignast rafbíl, sem megi ekki aðeins verða valkostur þeirra sem hafa meira á milli handanna.
„Markmiðið er skýrt. Við ætlum í orkuskipti og erum að fara yfir í rafbíla. Það hefur verið vitað að það vantar fyrirsjáanleika í þetta fyrirkomulag. Nú þarf að bæta úr því. Útfærslan á því er ekki aðalatriðið heldur að niðurstaðan verði sú sem menn vilja sjá,“ segir Guðlaugur Þór.