Innlent

Mats­maður leggur mat á 167 milljóna króna þóknun Sveins Andra

Árni Sæberg skrifar
Þrotabú EK1923 greiddi Sveini Andra vel á annað hundrað milljóna króna.
Þrotabú EK1923 greiddi Sveini Andra vel á annað hundrað milljóna króna. Vísir/Vilhelm

Landsréttur féllst nýverið á beiðni þriggja félaga í eigu Skúla Gunnars Sigfússonar um að matsmaður yrði dómkvaddur til að leggja mat á þóknun Sveins Andra Sveinssonar sem hann fékk fyrir að skipta búi EK1923 ehf. Sveinn Andri fékk tæplega 167 milljónir króna fyrir störf sín sem skiptastjóri.

Félögin Leiti eignarhaldsfélag ehf., Sjöstjarnan ehf. og Stjarnan ehf. telja þóknun Sveins Andra hafa verið úr hófi og telja sig eiga skaðabótakröfu á hendur honum vegna þess. Félögin fóru því fram á að dómkvaddur yrði einn hæfur og óvilhallur matsmaður, sérfróður um gjaldþrotaskipti og skiptastjórn, til að meta hver hefði verið eðlileg þóknun fyrir störf Sveins Andra í þágu þrotabús EK1923 ehf.

Leiti eignarhaldsfélags var eini hluthafi hins gjaldþrota félags og hin félögin tvö voru kröfuhafar í búið. 

Sveinn Andri krafðist þess hins vegar að úrskurður héraðsdóm, um að hafna beiðni félaganna, yrði staðfestur.

Landsréttur leit svo á að mat matsmanns myndi renna stoðum undir kröfur félaganna þriggja og því ættu þau lögvarinna hagsmuna að gæta af málinu. „Það er ekki hlutverk dómstóla á þessu stigiað taka afstöðu til málsástæðna aðila umfram það sem lýtur að því hvort umbeðið mat sé bersýnilega tilgangslaus,“ segir í úrskurði Landsréttar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×