Edwards notaði meiðandi og niðrandi ummæli, að mati NBA, um samkynhneigða í myndbandi á Instagram fyrr í þessum mánuði. Fyrir þau fékk hann fjörutíu þúsund Bandaríkjadala sekt. Það samsvarar tæpum 5,7 milljónum íslenskra króna.
Hinn 21 árs Edwards baðst afsökunar á ummælunum í færslu á Twitter. „Það sem ég sagði var óþroskað, meiðandi, ruddalegt og ég biðst innilega afsökunar. Það er óafsakanlegt fyrir mig eða hvern sem er að nota svona orðbragð,“ skrifaði Edwards.
What I said was immature, hurtful, and disrespectful, and I m incredibly sorry. It s unacceptable for me or anyone to use that language in such a hurtful way, there s no excuse for it, at all. I was raised better than that!
— Anthony Edwards (@theantedwards_) September 11, 2022
Hann var valinn fyrstur af Minnesota Timberwolves í nýliðavali NBA fyrir tveimur árum. Á sínu fyrsta tímabili í NBA var Edwards með 19,3 stig, 4,7 fráköst og 2,9 stoðsendingar að meðaltali í leik. Á síðasta tímabili skilaði hann 21,3 stigum, 4,8 fráköstum og 3,8 stoðsendingum.
Úlfarnir frá Minnesota komust í úrslitakeppnina á síðasta tímabili en töpuðu þar fyrir Memphis Grizzlies í sex leikjum.