Hólar í Hjaltadal urðu biskupssetur árið 1106 og umgjörð biskupsvígslunnar á Hólahátíð í síðasta mánuði hæfði sannarlega tign staðarins.
Í fréttum Stöðvar 2 mátti sjá prósessíuna á leið til kirkju. Þar gengu prestar í vígsluröð, yngstu prestarnir fremst, síðan prófastar og biskupar.

Verðandi vígslubiskup, séra Gísli Gunnarsson í Glaumbæ, gekk á undan biskupum frá hinum Norðurlöndunum. Aftast komu svo vígðir biskupar Íslands, fyrrverandi og núverandi vígslubiskupar, og loks biskupinn yfir Íslandi, Agnes M. Sigurðardóttir.
Á leið til kirkju bar Solveig Lára kórkápuna en eftir að búið var að vígja nýjan biskup, setja biskupskross um háls hans, skipti kápan um herðar. Vígsla Gísla var innsigluð með því að hann var klæddur kápunni.

Við Auðunarstofu hittum við Solveigu Láru og eiginmann hennar, séra Gylfa Jónsson, en þau hafa núna kvatt Hóla eftir tíu ára búsetu á biskupssetrinu. Á skrifstofu biskups sýnir hún okkur kórkápuna sem er gerð eftir kápu Jóns Arasonar Hólabiskups.
„Frumgerðin, sem sagt gamla kápan, er á Þjóðminjasafninu. En Jón Aðalsteinn Baldvinsson og Margrét Sigtryggsdóttir, konan hans, gáfu þessa kápu til minningar um Sigrúnu Jónsdóttur, dóttur sína, sem dó úr krabbameini frá þremur ungum börnum,“ segir Solveig Lára.

Og það var einmitt Jón Aðalsteinn, þáverandi vígslubiskup Hóla, sem fyrstur bar kápuna opinberlega og vígði hana á Hólahátíð árið 2008.
„En það var Ólína Bragadóttir Weightman sem saumaði þetta. Og hún var sem sagt fjóra tíma á dag, fimm daga vikunnar í þrjú ár, að sauma þetta.
Og þetta er algjört listaverk.
Og þvílíkur heiður að fá að bera þessa kápu,“ segir Solveig Lára Guðmundsdóttir.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: