Rússneskir þingmenn og leiðtogar leppstjórna Rússa í Luhansk, Donetsk, Zaporizhzhia og Kherson héruðum Úkraínu verða viðstaddur athöfnina í Kreml. Í kvöld verða síðan tónleikar í nágrenni við Rauða torgið í Moskvu til að halda upp á þessa ólöglegu innlimun eftir sýndar kosningar í vikunni. Fregnir eru um að fólki hafi verið greitt fyrir að mæta á tónleikana.

Rússar halda enn uppi árásum víðs vegar í þessum héruðum enda hafa þeir ekki lagt þau að fullu undir sig að frátöldu Luhansk. Tuttugu og þrír féllu og tæplega þrjátíu særðust þegar Rússar skutu fjórum eldflaugum á bílalest óbreyttra borgara í Zaporizhzhia sem ætluðu að koma vistum til ættingja á yfirráðasvæði Rússa. Þá særðust níu manns íeldflaugaárás á íbúðarhús í borginni Mykolaiv.

Volodymyr Zelenskyy forseti Úkraínu segir tilraunir Rússa til innlimunar á úkraísnku landi aðeins þýða eitt, gífurlega eyðileggingu á öllum grunnstoðum mannlegs lífs. Skoraði hann á rússneskan almenning og hermenn að rísa upp gegn Putin sem tæki stríð fram yfir líf þegna sinna með því að senda þá í opinn dauðann í Úkraínu.
„Fimmtíu og átta þúsund og fimm hundruð rússneskir hermenn hafa fallið í Úkraínu. Þeir komu til að drepa okkur en dóu sjálfir. Rússnesk yfirvöld halda þessum fjölda leyndum fyrir ykkur og ljúga því að sex þúsund hafi fallið," sagði Zelenskky.

Ólögleg innlimun Rússa hefur verið fordæmd víða um heim. Joe Biden forseti Bandaríkjanna sagði hina svo kölluðu atkvæðagreiðslu úbúa héraðanna fjögurra hafa verið algera sýndarmennsku og úrslitin fyrir fram tilbúin.
„Ég vil að það sé alveg á hreinu að Bandaríkin munu aldrei nokkru sinni viðurkenna kröfu Rússa til landsvæða sem tilheyra fullvalda Úkraínu. Þessar kosningar voru alger sýndargjörningur," sagði Joe Biden.