Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fagnaði því í nýlegri stefnuræðu á Alþingi að orkufyrirtæki í eigu ríkisins hefðu ekki verið seld. Það væri mikilvægt að þessir innviðir væru í eigu ríkisins. Þegar kemur að virkjun vindsins virðast lögmál villta vestursins hins vegar eiga að ráða.

„Það er ekki skrýtið að fólk upplifi það,“ segir Katrín. „Hér eru fjöldamargir aðilar sem hafa verið að merkja sér svæði með áætlanir um að reisa vindmyllur. En ég hlýt að minna á það í þessu sambandi að eins og lögin hafa verið túlkuð hingað til er eðlilegt að stærri vindorkuver, yfir 10 megavöttum, fari í gegnum ferli rammaáætlunar,“ segir forsætisráðherra.
Stjórnvöld væru hins vegar að móta stefnu og sérstaka löggjöf um vindorku, vindmyllur á landi og hafi.
„Þangað til hún liggur fyrir myndi ég telja að það sé óraunhæft að fara að tala um þessi mál af neinu viti,“ segir Katrín. Frumvarp fyrrverandi umhverfis- og auðlindaráðherra um þau mál þar sem lögð hafi verið til ákveðin svæðaskipting hafi ekki náð fram að ganga.

„Því ég held að ef íslenskur almenningur yrði spurður að þá séu flest sammála um það að við viljum ekki vindmyllur alls staðar. Við viljum hafa skipulag á þessum málum og það liggi skýrt fyrir hvar við sjáum þetta fyrir okkur og hvar ekki,“segir forsætisráðherra.
Tillögur starfshóps ættu að liggja fyrir upp úr áramótum þannig að frumvarp gæti komið fram á vorþingi. Þá væri ekki sjálfgefið að hver sem væri gæti hagnast á því að virkja vindinn gjaldfrítt. Norðmenn hafi nýlega kynnt verulega auðlindarentu af vindorkuverum.
„Og ég held aðvið ættum einmitt að líta til Noregs og læra af því sem þar hefur verið gert vel. En líka af þeim mistökum sem þar hafa verið gerð.“
Er sjálfsagt mál aðhver sem er geti reist vindmyllugarða til aðselja almenningi rafmagn?
„Ég held alla vega að undirstaðan í orkuframleiðslu á Íslandi; það er eðlilegt að hún sé í höndum almennings. En við erum auðvitað síðan með einkarekin fyrirtæki í orkuframleiðslu. Þá skiptir máli að það séu skýrar leikreglur um hvernig eigi að meta slíka kosti,“segir Katrín Jakobsdóttir.