„Fyrsti október. Við flöggum þjóðfána okkar á landsvæði okkar í Lyman. Allt landið verður Úkraína,“ sagði ónefndur hermaður þegar hann festi úkraínskan fána á skilti í útjaðri borgarinnar Lyman í dag. Um 5.500 rússneskir hermenn eru sagðir hafa hrakist brott úr borginni við sigur Úkraínumanna í dag. Rússar segjast standa keikir en viðurkenna ósigur.
„Mannfall varð í okkar röðum. Óvinurinn hafði mikla yfirburði í mannafla og búnaði. Þeir sendu inn varalið og héldu sókninni áfram í átt til okkar. Mikil hætta var á að herinn yrði umkringdur og við drógum því her okkar til baka frá Krasny Lyman og komum honum fyrir á betri stað,“ sagði Igor Konashenkov, talsmaður varnarmálaráðuneytis Rússlands, í dag.
Allt á sér þetta stað daginn eftir að Rússar lýstu yfir ólöglegri innlimun fjögurra úkraínskra héraða. Lyman er norðarlega í einu þeirra, Donetsk - og er borgin því sú fyrsta sem Úkraínumenn ná aftur á vald sitt eftir íburðarmikla athöfn Pútíns Rússlandsforseta í gær. Volódímír Selenskí Úkraínuforseti fordæmdi innlimunina í daglegu ávarpi í gærkvöldi.
„Enn annar skrípaleikur fór fram í Moskvu í dag. Einhverju var fagnað þar. Þau kyrjuðu einhver lög. Þau sungu á torginu. Þau töluðu um Saporisjía. Við minnumst að eilífu allra þeirra sem féllu í hryðjuverkaárásum Rússa.“
Selenskí vísaði þar til mannskæðrar árásar Rússa í Saporisja í gær. Breska varnarmálaráðuneytið benti einmitt á það í dag að Rússar væru þar með að drepa almenna borgara sem þeir teldu til eigin þegna.
Nýjar upplýsingar um annað voðaverk Rússa voru svo birtar í dag. 24, þar af þrettán börn og þunguð kona, eru sagðir hafa fallið í árás Rússa á bílalest almennra borgara í Karkív síðasta sunnudag, mun fleiri en áður var talið. Nýjar myndir af vettvangi bera hryllinginn skýrt með sér.