ESPN sýndi ekki atvikið í beinni en áhorfendur í Santa Clara voru fljótir að koma því á samfélagsmiðla þar sem myndbandið fór á flug á netmiðlum.
Öryggisverðir á leiknum náðu ekki að stoppa áhorfandann sem hljóp um með bleikt blys en ferð hans endaði ekki fyrr en tveir leikmenn Rams tækluðu hann í jörðina. Munaði þar mestu um harðar móttökur Bobby Wagner.
Varnarmaðurinn Wagner hefur spilað í meira en áratug í NFL-deildinni við góðan orðstír og hefur séð ýmislegt á sínum ferli. Áhorfandinn, sem seinna kom í ljós að var aðgerðasinni, fann örugglega vel fyrir högginu frá Wagner.
Áhorfandinn ákvað að kæra atvikið til lögreglu sem hefur staðfest að kæra hefur borist þeim og að lögreglurannsókn sé í gangi.
Wagner var spurður út í atvikið og virtist ekki hafa miklar áhyggjur. „Ég hef heyrt um þetta og svona er þetta bara. Þetta er liðin tíð fyrir mig og ég er ekki að hugsa um þetta. Ég hef meiri áhyggjur af öryggisverðinum sem meiddist við að elta hann. Við vissum ekkert hvað þessi bleiki reikur var,“ sagði Bobby Wagner.