Fyrir mánuði síðan átti Ísland möguleika á að tryggja sig inn á HM en tapaði þá 1-0 gegn Hollandi. Í dag gefst nýtt tækifæri, síðasti séns, með sigri gegn Portúgal í umspilsleik í Pacos de Ferreira.
Í leiknum við Holland, reyndar gegn umtalsvert sterkari mótherja en Portúgal, virtist spennan hreinlega bera íslenska liðið ofurliði í fyrri hálfleik. Þorsteinn segir það þó ekki ástæðuna fyrir tapinu þá og er með lausnir gegn Portúgal:
„Þá verðum við ekki í vandræðum“
„Við höfum alveg unnið í því líka hvernig við nálgumst leikinn út frá því að spennustigið sé sem best. En það voru bara ákveðnir hlutir sem gengu ekki upp, í seinni hluta fyrri hálfleiks gegn Hollandi.
Við höfum farið yfir hvernig við ætlum að spila á móti Portúgal og ef það sem við leggjum upp með gengur upp, og við þorum að vera með boltann og spila í gegnum pressuna þeirra á ákveðinn hátt, þá verðum við ekki í vandræðum. Við eigum von á því að ef þær spila eins og gegn Belgíu [í 2-1 sigrinum síðasta fimmtudag] þá séu þarna leiðir til að fara í gegnum þær, búa til færi og skapa mörk,“ segir Þorsteinn.
Ekkert má út af bregða gegn Portúgal í dag en Þorsteinn segir að íslenska liðið muni ekki spila varnarsinnaðri leik en það sé vant.
„Í sjálfu sér höfum við aldrei nálgast leik þannig að við ætluðum að liggja til baka. Byrja varnarleikinn fyrir aftan miðlínu eða eitthvað slíkt. Við höfum aldrei farið í leik á þann hátt. Stundum þróast leikir þannig, og það er bara partur af fótbolta að stundum lenda lið í því að andstæðingurinn ýti þeim aftar á völlinn.
Það geta öll lið lent í þessu. Við sáum þetta í enska boltanum um helgina. Milljarðaleikmenn sem þurftu allt í einu að standa aftan á vítateig. Stundum ganga hlutirnir þannig að þú þarft bara að verjast og þá þarftu bara að gera það vel. Ef þú gerir það þá koma tækifæri til að fara framar á völlinn. Við þurfum að vera tilbúin í alla þætti leiksins,“ segir Þorsteinn.
Ísland og Portúgal mætast klukkan 17, að íslenskum tíma, í úrslitaleik um sæti á HM. Fjallað verður ítarlega um leikinn á Vísi í allan dag.