Rússar héldu eldflaugaárásum sínum á borgir víðs vegar um Úkraínu áfram í nótt og morgun meðal annars á borgina Lviv í vesturhluta landsins. Tekist hafði að endurræsa um 95 prósent af raforkukerfi og um 70 prósent af vatnsveitukerfi borgarinnar eftir eldflaugaárásir gærdagsins. Eftir nýjustu eldflaugaárásirnar í dag eru um 30 prósent borgarinnar án rafmagns.

Efasemdir eru um að Rússar geti haldið viðlíka eldflaugaárásum uppi lengi vegna þess að þeir séu uppskoroppa með vopn, að mati bresku leyniþjónustunnar. Það á eftir að koma í ljós. Hins vegar hafa rússneskar og hvítrússneskar hersveitir safnast saman við landamæri Hvítarússlands og Úkraínu, sem minnir um margt á aðdraganda innrásar Rússa í norðurhluta Úkraínu í upphafi stríðsins i febrúar.
Vladimir Putin forseti Rússlands og Vassily Nebenzi fulltrúi Rússa hjá Sameinuðu þjóðunum hafa sakað Úkraínumenn um hryðjuverk með árás þeirra á Krímbrúna á sunnudag. Sendiherrann sagði í gær að NATO vildi herða á stríðsátökunum og beitti Úkraínu fyrir sig til að veikja Rússland.

Volodymyr Zelenskyy forseti Úkraínu stillti sér upp á götuhorni í Kænugarði í gærkvöldi skammt frá þar sem rússneskar eldflaugar höfðu sprungið. Hann sagði Rússa miða á leikvelli og innviði ásamt sögulega mikilvæga staði. Þetta væru dæmigerðar aðferðir hryðjuverkamanna.

„Það er ekki hægt að hræða Úkraínumenn, aðeins sameina þá enn frekar. Úkraína verður ekki stöðvuð, bara sannfærð enn frekar um að draga máttinn úr hryðjuverkamönnum. Rússneski herinn miðaði sérstaklega á þessi skotmörk á háannatíma. Þetta eru dæmigerðar aðferðir hryðjuverkamanna. Þeir vilja hræða fólk og hafa áhrif á almenning. Þeir gerðu það þannig að allur heimurinn tók eftir þvi,“ sagði Zelenskyy.