Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu yfir verkefni dagsins frá klukkan fimm í morgun til klukkan fimm nú síðdegis. Þar segir að starfsmaðurinn hafi gengið allt of langt í viðbrögðum sínum við meintum þjófnaði ungmennanna. Hann hafi beitt eitt þeirra ofbeldi og haft í hótunum við fleiri. Lögregla er nú með málið til rannsóknar.
Hótaði lögreglu vopnaður hnífi
Í dagbók lögreglu kemur einnig fram að einstaklingur vopnaður hníf hafi komið inn á lögreglustöðina við Hverfisgötu í annarlegu ástandi. Viðkomandi hafi óskað eftir aðstoð lögreglu við eitthvað, en illa hafi gengið að skilja hvað nákvæmlega hann vildi.
„Hafði hann þó í hótunum ef lögregla myndi ekki aðstoða hann myndi hann fara út að meiða fólk. Var hann kærður fyrir hótanir og vistaður vegna þess. Við öryggisleit fannst einnig hnífur á honum,“ segir í skeyti lögreglunnar.
Þá var annar maður sem lögregla hafði afskipti af sem fannst hnífur á, en sá hafði ekki viljað fylgja fyrirmælum lögreglu eftir að hafa verið til vandræða í miðbænum. Viðkomandi var einnig handtekinn.
Sendiferðabíll fauk
Þá brást lögreglan við tveimur tilkynningum um bílveltur. Sú fyrri varð við Kjalarnes þegar sendiferðabíll fauk á annan bíl. Ökumenn beggja bíla voru fluttir með sjúkrabíl til aðhlynningar á slysadeild.
Seinni bílveltan varð í Hvalfirði. Fjórir voru í bílnum en engan sakaði, að því er fram kemur í dagbók lögreglu.