Körfubolti

Fengu meistarahringana og unnu svo Lakers

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Andre Iguodala, Stephen Curry, Draymond Green og Klay Thompson sýna meistarahringana fyrir leikinn gegn Los Angeles Lakers í nótt. Þeir eiga fjóra slíka.
Andre Iguodala, Stephen Curry, Draymond Green og Klay Thompson sýna meistarahringana fyrir leikinn gegn Los Angeles Lakers í nótt. Þeir eiga fjóra slíka. getty/Ezra Shaw

Keppni í NBA-deildinni í körfubolta hófst í nótt með tveimur leikjum. Titilvörn meistara Golden State Warriors fer vel af stað.

Fyrir leikinn gegn Los Angeles Lakers fengu leikmenn Golden State afhenta hringa eins og venjan er að meistaralið fá. Golden State vann svo leikinn, 123-109.

„Ég er hæstánægður með sigurinn. Hringakvöld eru aldrei auðveld og venjulega eru menn stressaðir í fyrsta leik,“ sagði Steve Kerr, þjálfari Golden State, í leikslok.

Stephen Curry skoraði 33 stig, tók sex fráköst og gaf sjö stoðsendingar. Andrew Wiggins skoraði tuttugu stig og Klay Thompson átján. 

Draymond Green, sem er nýkominn aftur inn í lið Golden State eftir að hafa verið sendur í leyfi fyrir að kýla samherja sinn, Jordan Poole, hafði hægt um sig; skoraði fjögur stig, tók fimm fráköst og gaf fimm stoðsendingar. Poole skoraði tólf stig og gaf sjö stoðsendingar.

LeBron James skoraði 31 stig, tók fjórtán fráköst og gaf átta stoðsendingar í fyrsta leiknum á tuttugasta tímabili sínu í NBA. Anthony Davis skoraði 27 stig og Russell Westbrook nítján.

Boston Celtics, silfurlið síðasta tímabils, sigraði Philadelphia 76ers, 126-117, í leik tveggja af sterkustu liða Austurdeildarinnar.

Jaylen Brown og Jayson Tatum skoruðu 35 stig hvor fyrir Boston sem lék í gær fyrsta keppnisleikinn undir stjórn Joe Mazzulla. Hann tók við liðinu eftir að Ime Udoka var dæmdur í árs bann vegna sambands við starfsmann Boston. Malcolm Brogdon skoraði sextán stig af bekknum í fyrsta leik sínum fyrir Boston. Varamenn Sixers skoruðu aðeins ellefu stig samtals.

James Harden skoraði 35 stig fyrir Philadelphia og Joel Embiid var með 26 stig og fimmtán fráköst. Tobias Harris skoraði átján stig.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×