Ísland hóf undankeppni EM fyrr í þessum mánuði og þrátt fyrir örugga sigra gegn Ísrael og Eistlandi á liðið alveg eftir að tryggja sér sæti í lokakeppninni. Það gerist í fyrsta lagi næsta vor, eftir heimsmeistaramótið sem fram fer í janúar.
Engu að síður hefur EHF nú þegar gefið út hvar Ísland spilar á EM í Þýskalandi, með þeim fyrirvara að liðið komist þangað. Það yrði í Ólympíuhöllinni í München og yrði Ísland í C-riðli.
Danmörk er örugg um sæti á EM eftir bronsverðlaun á síðasta EM, og mun einnig spila í Ólympíuhöllinni en í F-riðli.
Gestgjafar Þýskalands og liðin sem léku til úrslita á síðasta EM, Spánn og Svíþjóð, eru einnig örugg um sæti á EM. Þjóðverjar spila í A-riðli en Svíar í E-riðli. Noregi hefur svo verið raðað í D-riðil og Króatíu í B-riðil, en bæði lið eiga eftir að vinna sig inn á EM.
Á mótinu verður alls spilað í sex borgum. Til stendur að setja áhorfendamet á 50.000 manna velli í Düsseldorf, á upphafsleik mótsins, en í riðlakeppninni verður einnig spilað í Berlín, Mannheim og München. Í milliriðlakeppninni verður spilað í Hamborg og Köln og úrslitahelgin verður svo í Köln, í hinni frægu LANXESS-höll þar sem úrslitin hafa ráðist í Meistaradeild Evrópu um árabil.