„Við einfaldlega skuldum borgarbúum að gefa Samfylkingunni frí,“ sagði Bjarni í setningarræðu sinni og uppskar við það lófaklapp samflokksmanna. Hann sagði fjárhagsstöðu Reykjavíkur með ólíkindum og gerði grín að fyrirhuguðum aðhaldsaðgerðum.
Hægt er að hlusta á ræðu Bjarna í heild sinni hér að neðan. Umræða um Samfylkinguna hefst á mínútu 41:40.
„Það er ekki lengra síðan í vor að borgarstjóri fullvissaði kjósendur um að fjármál borgarinnar væru ekki bara í lagi, heldur til fyrirmyndar. Það voru boðuð mörg og magnþrungin verkefni upp á tugi ef ekki hundruð milljarða. Nú eftir kosningar þá kemur eitthvað allt annað í ljós. Það má ekki á milli sjá hvor þeirra er meira hissa, Dagur B. Eggertsson eða Einar Þorsteinsson, báðir með hökuna alveg niður í gólfið.“
Hann gaf oddvita Framsóknarflokksins í borgarstjórn nokkurn slaka og sagði hann sitja uppi með reikninginn, enda væri hann að koma föllnum meirihluta til bjargar.
„Það var magnað, alveg magnað að heyra borgarstjóra tala um það dimmraddaðan að héðan í frá verði aðeins ráðið fólk hjá borginni ef það er nauðsynlegt. Hverjum öðrum en vinstrimönnunum í borgarstjórn gat dottið í hug árum saman að ráða í ónauðsynlegar stöður,“ sagði Bjarni við hlátur viðstaddra.