Árlega leita yfir 700 konur til Kvennaathvarfsins í leit að ráðgjöf og öruggu skjóli. Í söfnunarþættinum Saman byggjum við nýtt Kvennaathvarf var meðal annars rætt við Elsu Yeoman húsmóður athvarfsins.
„Ég passa upp á að það sé hlýtt og vinalegt andrúmsloft svo fólki líði eins vel og hægt er í húsi,“ segir Elsa.
„Það er mjög misjafnt hvað það geta verið margir í mat. Ég hef stundum verið að elda fyrir þrjá, stundum allt að þrjátíu manns.“
Gefandi að sjá börnin byrja að brosa
Kvennaathvarfið er neyðarathvarf fyrir konur sem verða fyrir ofbeldi í nánu sambandi og börnin þeirra.
„Fólk er mjög oft á erfiðum stað en svo kynnumst við hvert öðru og lærum að treysta hvert öðru. Það er oft ótrúlega gefandi að sjá þegar börnin byrja að brosa eða byrja að hlaupa í fangið og vilja hjálpa til við að baka köku.“
Elsa viðurkennir þó að sumir vinnudagar séu strembnari en aðrir og erfitt sé að horfa upp á aðstæður margra.
„Það kom mér á óvart hvað það getur tekið á að horfa upp á einstaka mál. Eins og það er gott og gefandi að vinna í þágu athvarfsins, þá viðurkenni ég að maður þarf stundum að bíta, kyngja á munnvatninu og þurrka tárin úti í horni.“
Viðtalið við Elsu má sjá í heild sinni spilaranum hér fyrir neðan.
Hægt er að horfa á söfnunarþáttinn á Stöð 2+ og hér á Vísi.
Árlega leita yfir 700 konur til Kvennaathvarfsins í leit að ráðgjöf og öruggu skjóli. Sett hefur verið af stað söfnun fyrir stærra og hentugra húsnæði undir yfirskriftinni Saman byggjum við nýtt Kvennaathvarf.
Söfnunarnúmerin má sjá hér fyrir neðan:
- 907-1010- 1.000 krónur
- 907-1030 -3.000 krónur
- 907-1050-5.000 krónur
Söfnunarreikningur fyrir frjáls framlög:
Kennitala 410782 – 0229 - Reikningsnúmer 515-14-7700