Njarðvík fékk til sín Spánverjann Nacho Martin sem er 39 ára gamall og mikill reynslubolti úr ACB deildinni á Spáni.
Í frétt um samninginn á heimasíðu Njarðvíkur þá kemur fram að Njarðvíkingar séu neðstir í fráköstum í deildinni og Martin sé meðal annars ætlað að laga slæma frákastatölfræði liðsins.
Alls spilaði hann 282 leiki í bestu deild Evrópu en hann skoraði meðal annars 15,6 stig og tók 7,0 fráköst í leik með liði Valladolid 2012-13. Hann var með 8,6 stig og 4,5 fráköst á ACB ferlinum.
Martin hefur leikið allan sinn feril á Spáni en núna kemur hann frá CB Cornella sem leikur í spænsku 3. deildinni. Síðustu tvö tímabil á undan lék hann í næstefstu deild.
„Ég er ánægður með að hafa landað Nacho þar sem markaðurinn þegar kemur að bosman-leikmönnum er mjög erfiður. Hann tikkar í þau box sem við viljum en hann getur spilað með bakið í körfuna, skotið og frákastað,“ sagði Benedikt Guðmundsson, þjálfari Njarðvíkur, í samtali við UMFN.is
„Það er mikilvægt að hann sé bæði í formi og leikæfingu. Þá fær hann frábær meðmæli sem karakter og það er ekki síður mikilvægt en getan inni á vellinum. Við höfum lagt áherslu á að vera með lið sem spilar liðskörfubolta og því erum við alltaf að leita af leikmönnum sem hafa háa körfuboltagreind, sem kemur oftast með reynslunni,“ sagði Benedikt.